Vaka SI 17. Myndir frá siglingunni. Grímsey á Steingrímsfirði.

IMG_2111

Grímsey á Steingrímsfirði er stærsta eyja fyrir Ströndum. Í Grímsey var fyrrum býli og fram á 20. öld höfðu menn vetursetu á eyjunni og verbúðir. Í eyjunni var reistur viti 1915 og síðan endurbyggður 1949, eftir að sprengjuflugvél hafði eyðilagt hann með skotárás í síðari heimsstyrjöld.

Eyjan er kennd við Grím Ingjaldsson sem kom í landaleit frá Noregi og var vetur í eynni ásamt fólki sínu. Frá Grímsey sótti hann sjó með húskörlum sínum og í einum róðrinum veiddi hann marbendil á Steingrímsfirði. Marbendill er þjóðsagnavera sem lifir á hafsbotni og hefur mannsmynd. Spádómsgáfa þeirra er einstök og því bað Grímur hann um að spá fyrir sér. Sonur hans Þórir lá þá í selbelg í stafni fleysins. Marbendillinn svaraði: „Eigi þarf eg að spá yður, en sveinninn sem liggur í selbelginum mun byggja land og nema, er meri yðar leggst undir klyfjum.”

Síðar um veturinn týndust Grímur og húskarlar hans í fiskiróðri. Þau feðgin fóru um vorið úr Grímsey yfir í Breiðafjörð og höfðu vetursetu á Skálmarnesi á Barðaströnd. Þar stóð merin Skálm uppi allan veturinn og lagðist aldrei niður. Á nýju vori rættist spádómur marbendilsins því merin gekk fyrir þeim þar til þau komu til Borgarfjarðar, þar sem sandmelar tveir voru. Þar lagðist Skálm niður undir klyfjum og nam Þórir land að Rauðamel hinum ytra og varð höfðingi mikill. Hann var kallaður Sel-Þórir.

Refir voru aldir um skeið í Grímsey á fyrri hluta 20. aldar. Yrðlingar voru fluttir út í eyjuna fyrri hluta sumars og sleppt þar, en síðan veiddir að vetrinum þegar skinnin voru fallegust og verðmætust. Fóður varð að flytja til refanna að einhverju leyti en annars fæddu þeir sig sjálfir. Mikil lundabyggð er í Grímsey og hægt er að komast í skoðunarferðir út í eyjuna frá Drangsnesi með bátnum Sundhana ST 3.

Lítið er um ferskvatn í Grímsey en uppspretta ein finnst í klettum vestan til á eynni. Heitir þar Gvendarbrunnur eftir Guðmundi biskupi góða sem vígði hann og er þar síðan ávallt ferskt vatn að finna, sama hversu miklir þurrkar eru eða frostharka.

Upplýsingar af: http://malarhorn.is/